Nú er smá tilraunastarfsemi í gangi ég ætla að athuga hvort ég get sett LÖNGU ferðasöguna mína hérna inn! þetta er nú bara sagan frá íslandi því mér lá svo mikið á hjarta þegar ég skrifaði hana að ég komst ekkert áfram og svo hef ég ekki gefið mér tíma til að klára hana enda gerðist svo sem ekki mikið. ´
´
Hér kemur sagan:
Ferðasagan
Ég lagði af stað í langferð þann 2. september 2003. Þegar ég var búin að yfirfara allan farangurinn í huganum lokaði ég hurðinni að Reynimelnum og hugsaði með mér að nú væri ég lögð af stað, nú ekki yrði aftur snúið, Frakkland var því sem næst orðið að veruleika. Nú gat ég farið að slaka aðeins á því það var komið að því sem ég hafði kviðið undanfarið. Þrátt fyrir það vildi efinn aftast í huganum ekki alveg hverfa en þar sem ég kannaðist við tilfinninguna var ég ekkert að láta hana á mig fá. Það þýðir lítið að velta sér upp úr efa hugsaði ég með mér og fór að hugsa um eitthvað annað.
Ég settist upp í litla græna bílinn minn, leit yfir farangurinn og keyrði glöð og kát af stað. Eftir nokkara keyrslu kom ég til ömmu á Hellu og kvaddi hana og við fórum að leiði afa í Oddakirkjugarði en þennan dag var akkúrat ár frá því hann dó. Eftir þetta litla stopp hélt ég áfram keyrslunni og virti fyrir mér íslenska landslagið eins og ég vissi að ég væri að verða blind og myndi aldrei sjá það aftur. Á endanum komst ég á Klaustur, búin að keyra tæpa 300 km eða tæplega 10% af heildarvegalengdinni. Mamma og pabbi tóku vel á móti mér og pabbi fór strax að reyna að koma farangrinum betur fyrir í bílnum og ég varð óhemju örg yfir því en líklegast bara vegna þess að honum tókst að gera betur en mér hafði tekist! Nú var bara eins gott að ég þyrfti ekki að skipta um dekk því varadekkið var undir öllum herlegheitunum. Pabbi fór einnig yfir bílinn og fékk fyrir mig “tíma” hjá Gunnari á verkstæðinu til að gera dekkin klár fyrir hraðbrautirnar því Olgeir var búinn að segja mér að það væri betra að hafa ekki of lítið loft í dekkjunum því þá hitna þau svo þegar hratt er keyrt!! Já þetta á víst ekki bara við í Formúlunni, dekkin hitna víst líka hjá almennum borgurum.
Upphaflega hafði ég hugsað mér að vera á Klaustri í rólegheitunum allan miðvikudaginn og keyra á Seyðisfjörð aðfaranótt 4. sept. Ég ætlaði bara að mæta beint í röðina í Norrænu en þar sem það var spáð vondu veðri og pabbi vildi endilega að ég færi strax af stað (hvernig sem maður á nú að túlka það!!) auk þess sem ég hafði lítið að gera annað en bíða eftir að mamma og pabbi kæmu heim úr vinnunni ákvað ég að fara bara af stað á Egilsstaði um hádegið. Þegar ég var búin að koma mér vel fyrir í bílnum og hafði að koma geislaspilaranum í gang var ég bara nokkuð sátt en það að loka hurðinni á Klaustri hafði sömu áhrif og þegar hurðin á Reynimelnum lokaðist, efinn braust fram. Enn á ný ákvað ég að vera ekkert að hugsa um það hvort ég væri að gera rétt með því að ana þetta út í heim og keyrði syngjandi af stað.
Ég brunaði framhjá Dverghömrum, Orrustuhól, Lómagnúpi, Skaftafelli, Vatnajökli, missti af afleggjaranum að Djúpavogi og endaði því sem næst inni á Höfn áður en ég áttaði mig! Já ímyndið ykkur, Bergrún ein á ferð hefur að villast á Íslandi hvernig gat mér dottið til hugar að fara til Evrópu og ætla mér að rata þar!!! Ég fann þó fljótlega rétta afleggjarann og hugsað með mér að kannski væri ekki svo vitlaust að lesa aðeins á vegvísana og skrifaði það bakvið eyrað að þegar ég kæmi á meginlandið væri það góður siður.
Ég brunaði svo upp Almannaskarð og þegar það var farið að styttast í Djúpavog var ég farin að ókyrrast því ég þurfti á klósettið og var svöng. Allt í einu heyrðist svakalegt hljóð eins og heil fjallshlíð væri að hrynja nema hvað hljóðið kom úr litlu grænu elskunni minni. Ég snarhemlaði og stoppaði bílinn úti í kannti, setti hassardljósin á og þorði svo ekki að gera neitt annað í smá tíma. Þetta var svona augnablik eins og þegar maður sker sig eða meiðir sig, það er betra að sjá ekki hvað er að þá getur maður afneitað því í smá tíma í viðbót. Á endanum steig ég nú samt út úr bílnum og sá að hljóðkúturinn var bara dottinn undan bílnum. Hmm nú voru góð ráð dýr! Heilinn fór af stað og ég mundi eftir því þegar ég var með Rannveigu og Óla uppi á e-m fjallvegi á Vestfjörðunum í fyrra sumar að það er ekkert mál að binda hljóðkútinn upp og keyra svo bara áfram. Ég ætlaði nú ekki að vera e-r gungustelpa sem gat ekki bjargað sér og fór að pota í draslið en með því kom ég upp um heimsku mína því kúturinn var sjóðandi heitur og ég kipptist til og ákvað að leifa honum aðeins að kólna áður en ég myndi hella mér í viðgerðina. Ég settist upp í bílinn og komst þar að því að ég var ekki með nokkurn skapaðan hlut í öllum farangrinum mínum sem ég gæti (eða vildi) notað til að binda draslið upp. Á þessari stundu braust efinn fram eina ferðina enn og nú af mun meira afli en áður. Ég hef aldrei áður þurft að glíma við hann svona lengi. Áður hef ég vaknað með efa í huganum, komið mér og öllu mínu hafurtaski(?) út á flugvöll, kvatt liðið, gengið gegnum hliðið og verið þar með búin að loka öllum undankomuleiðum. Núna gat ég snúið við hvar sem var, ég þurfti ekkert endilega að halda ferðinni áfram, ég gat farið til mömmu og pabba og verið hjá þeim í nokkra daga og farið svo aftur til Reykjavíkur og athugað hvort ég gæti ekki bara fengið vinnu á RALA aðeins lengur og það var ekki slæm tilhugsun því sumarið var frábært!
Sem betur fer gat ég ekki hugsað svona lengi því allt í einu birtist RISA stór vörubíll og þegar hann sá litla græna bílinn stopp úti í kannti stoppaði hann. Þetta var svona augnablik eins og klippt út úr Raupu seríunni: út steig stæltur vörubílsstjóri í gallabuxum og skyrtu karlmennskan uppmáluð, hún kikknaði í hnjánum og hjartað barðist hraðar í brjósti hennar, hann vann hratt og örugglega og vissi nákvæmlega hvað hann átti að gera, hún var eilíflega þakklát and they lived happelly ever after!!! Nei ekki var það nú alveg svo gott. Það var nú samt þannig að út steig vörubílsstjóri sem var í gallabuxum og skyrtu og hann gekk strax að e-u hólfi á bílnum sínum og sótti hanska (vissi líklega að hljóðkútar hitna við akstur eins og dekkin í formúlunni) og snæri (kannski hann hafi líka farið í bíltúr á Vestfirskum fjallavegi?). Mér leið eins og ljósku og allgjörum aumingja, var í pilsi meira að segja. Stelpa ein á ferð sem kann ekkert í sinn haus um bíla og í pilsi að auki, hefði ekki getað litið út fyrir að vera bjargarlausari ojjjjjjjjjjj. Vörubílsstjórinn komst að því að blessaður hljóðkúturinn var svo illa brotinn frá að það var ekki einu sinni hægt að binda hann upp þannig að hann bara sleit hann af og ætlaði að henda honum út í kannt. Ég var nú ekki alveg á því að henda þessum fína kút, ég var nú einu sinni búin að borga fyrir hann þar sem hann var eitt sinn hluti af mínum fyrsta bíl! Kúturinn fór því til Egilsstaða í afturglugganum á bílnum. Ég þakkaði vörubílstjóranum pent fyrir og keyrði af stað og nennti sko ekki að fara á Djúpavog að pissa og fá mér að borða, nú lá mér á að komast á leiðarenda svo ég gæti hugsað minn gang og fundið út hvort e-r gæti gert við bílinn eða hvort ég þyrfti að keyra yfir hálfa Evrópu án hljóðkúts. Ég fór yfir Öxi og leið bara eins og alvöru rallíkappa, fullt af rosa beygjum og sveigjum og svona flott hljóð í bílnum að auki, það eru nú ekki allir svona heppnir ha!!
Þegar ég komst loksins á Egilsstaði fann ég hvað verkstæðið er sem gerir við pústkerfi en það var auðvitað lokað þannig að ég bara keyrði á gististaðinn og kom mér fyrir þar og horfði á sjónvarðið í síðasta sinn í langan tíma. Morguninn eftir vaknaði ég fyrir allar aldir svo ég yrði nú örugglega númer eitt í röðinni á verkstæðinu því ég gerði auðvitað ráð fyrir því að eins væri komið fyrir öllum sem væru að fara með Norrænu en það var svo bara misskilningur, ég var sú eina sem þurfti að láta sjóða pústkerfið saman! Seinna frétti ég svo að ég hefði vakið fólk á gistiheimilinu þegar ég fór hahaha. Eftir heimsóknina á verkstæðið fór ég að versla svo ég hefði nú örugglega nógu mikið að borða um borð í ferjunni og svo þurfti ég að kaupa íslenskt gotterí handa Sif og Sigga og Vikingi en ég fékk gistingu hjá þeim í Danmörku. Allt þetta gerði ég og hugsað “þetta er það síðasta sem ég kaupi á Íslandi í langan tíma, þetta er það síðasta sem ég borða í langan tíma …….”. Svo var bara ekkert eftir nema að keyra á Seyðisfjörð og á leiðinni þangað voru nokkrar undankomuleiðir sem ég hugsaði um að taka en ég endaði í röðinni endalausu.
og svo nennti ég ekki meiru skrifa kannski meiri ferðasögu við tækifæri
já og til hamingju þeir sem nenntu að lesa alla þessa langloku!!!