Bergrún
ÆÆÆÆÆÆÆÆÆÆ
Anda inn, anda út, anda inn, anda út!!
Hjálpi mér hver sem getur, það kom Regína inn í herbergið mitt og tók beint strik undir rúmið!!!
Ég verð hreinlega að sigrast á þessum ótta mínum. Þar sem ég var ein heima ákvað ég að láta hana ekki komast upp með svona lagað, rauk og sótti ryksuguna og náði henni með þessu undratæki. Verst þykir mér samt að hún er lifandi í ryksugunni.
Ég er búin að færa rúmið mitt frá öllum veggjum og pabbi, við skulum ekkert tala um að þessar elskur sæki í hita, það eru bara íslenskar Regínur sem gera slíkt! Annars ætti ég kannski að fara að fá mér "kuldapoka" og raða umhverfis rúmið.
Og í þessum töluðu orðum er ég að fatta eitt!!! Íbúðin er beint fyrir ofan kjallarann sem er fullur af köngulóavef! Þær koma áreiðanlega bara upp í gegnum gólfið!! Jakkkk, ojj bara hvers vegna fattaði ég þetta?
Ég ætla að fara í súpermarkað og svo ætla ég að skúra gólfið upp úr skordýraeitri.
Og þið sem eruð hneyksluð á þessari Regínufóbíu minni eruð velkomin hingað til að tína þær héðan út!
Farin í hugleiðslu og allsherja róun, anda inn, anda út, anda inn, anda út, hugsa um skordýralaust Ísland og Norðurpólinn, ég svíf héðan úr Regínuríki og inn í skrímslalausa heima.
Stórtíðindi
Já þá er vorið komið, trén farin að sprengja brumið og fuglarni farnir að syngja. Þetta gerðist allt um leið og hitastigið fór að verða vinalegt og núna er held ég bara kominn sá árstími þegar maður þarf að fara að versla sér pils og sumarjakka!
En það er nú ekki eintóm sæla sem fylgir þessu vori, ó nei. Regínurnar eru komnar á stjá. Var í morgun í miklum rólegheitum að borða morgunmatinn minn og þegar ég var búin að því snéri ég mér við og þar var ein Regína á trítli. Þessi var svo stór að ég bara ákvað að fara út úr eldhúsinu, leifa henni bara að hafa sitt yfirráða svæði, ég get alveg borðað á veitingastöðum sko. Á meðan hún heldur sig fjarri herberginu mínu þá er þetta í lagi sko. Ég er orðin vön þessum litlu og hef ekkert mikið kvartað yfir þeim, tók þær í sátt og ákvað að það væri fínt að hafa nokkrar köngulær til þess að halda öðrum skordýrum úr íbúðinni, lít bara á þær sem hluta af vistkerfi íbúðarinnar. En þessi er ekki velkomin, hún er bara of stór til að ég geti drepið hana og ekki get ég tekið hana og hent henni út, hef aldrei getað. Held að eina leiðin sé að sannfæra meðleigjandann að þetta flykki sé of plássfrekt og að hún verði að losa okkur við Regínu, hún borgar enga leigu og á því ekki rétt á sér!
Annað í fréttum er nú fátt, enda var þetta svoddan áfall í morgun, minnti mig á hinar risavöxnu margfætlur sem komu algjörlega óboðnar í hina frönsku íbúðina mína, fæ alveg ógeðishroll við tilhugsunina. Þar barðist ég sko við alvöru skrímsli.
Já og núna er búið að breyta klukkunni, ég er komin á sumartímann. Er orðin tveimur tímum á undan ykkur heima! Glatað að tapa svona klukkutíma úr sólarhringnum, hvers vegna er ekki hægt að gera þetta á virkum degi þannig að maður tapi ekki dýrmætum frítíma?
Jæja, held að ég ætli að koma mér út í sólina, það er ótrúlega fallegt veður og gott og um að gera að njóta þess. Vona að þið hafið það öll sem best og hef þetta ekki lengra.
Jæja jæja jæja
Hvað er að frétta af mér? Lítið eins og vanalega, er alveg búin að fá nóg af þessari borg sem ég er í vegna þess að héðan er bara ekki hægt að komast nema hafa nægan tíma! Mig langar svo til Toulouse en það er bara ein lest á dag sem tekur rúmlega 6 klst. Þetta pirrar mig. Svona er þetta með allar borgir, það er víst ekki gott að búa í massif central þegar maður þarf á lestum að halda, þær fara bara allan hringinn hér í kringum en engin þeirra drífur hingað upp! Glatað. Svo er líka annað, þær eru svo dýrar þessar lestir, hugsið ykkur bara það kostar svipað að leigja bíl (þ.e. ef ég finn e-n annan sem vill fara með mér) yfir helgina og að taka lestina. Þá er nú sniðugra að leigja bílinn því það tekur helmingin styttri tíma.
Já ætli ég hætti ekki bara að hugsa um þetta, kemst ekkert til Toulouse á morgun.
Svo ég haldi nú áfram á svartsýnu nótunum þá er ég að berjast við að klambra saman geinakorni sem á að vera 5500 orð, ég er búin að berjast í þessu heillengi og ég held að ég hafi komið 200 orðum á blað í allan heila dag. Þvílíkt andleysi og aumingjaskapur.
Jæja best að fara að sofa svo ég verði tilbúin í skólann á morgun, jámm ég er að fara að hlusta á fyrirlestur alllllllllllan daginn á morgun, og konugreyið sem kennir okkur (ef kennslu skyldi kalla) virðist búa sig undir baráttu á morgnanna því hún er sko bara eins og indíani á leið í bardaga, svo stífmáluð og litskrúðug er hún! Það þarf nú mikið til að ég fari að setja út á förðun en vá.....
Fór í leikfimi í gær og kom óslösuð og algjörlega ósködduð út!!
Frábær helgi að baki, skemmtilegasta kvöld sem ég hef nokkurn tíman upplifað í Clermont-Ferrand var á föstudaginn þegar við fórum að fagna St Patriks deginum. Þarna var spjallað, dansað, drukkið og sungið af mikilli innlifun. Frábært kvöld í alla staði. Var komin heim upp tæplega fimm og því þurfti að sofa hratt þá nóttina til þess að ná í skólann klukkan 10.30 en þar átti ég stefnumót við 3 valkyrjur. Við fórum svo í gönguferð um Chaine des Puys allan daginn og ég var sko vel þreytt er heim kom. Sunnudagurinn fór svo í að endurheimta tapaðan svefn og svo var mér boðið með í bíltúr til nærliggjandi borgar Vichy. Þetta er borg gamla fólksins en það sem er gott við hana er að í gegnum hana rennur á. Ég sakna þess svo að hafa ekki á eða sjó, undarlegt hvað maður er vanur því að hafa fullt af vatni í kringum sig.
Jæja annað er ekki að frétta, enn hafa engar fréttir borist af styrknum sem ég sótti um, ég kíki á póstinn á 10 mín fresti og kem þar af leiðandi litlu öðru í verk þessa dagana. Já og svo kom vorið formlega í gær, 20 mars stendur á frönskum dagatölum að vorið sé komið. Ég fór út að leita að því og fann það pottþétt. Hér var um 17 stiga hiti í gær og ég sá fyrstu blómin á trjánum! Svo hlustaði ég á veðurfréttir í morgun og þar var sagt 18 stig í dag!! Held að þetta hljóti að vera vorvottur. Öfunda ykkur ekki af mbl fréttinni sem segir -14 í dag!! Njótið vel engu að síður ;-)
Það hefur lítið drifið á daga mína síðan síðast. Ég fór að vísu á veitingahús á laugardaginn og borðaði svo mikið þar í hádeginu að ég kom hvorki niður votu né þurru þar til daginn eftir.
Svo kom nú að því að fullt af fólki vildi fara að viðra sig þar sem verðirð var gott en ég .... manneskjan sem geri ekki annað en væla yfir því hvað fólk er ekki motivated til að viðra sig... varð að afþakka 2 boð. Þurfti að fara á sunnudeginum til þess að undirbúa örgreinisdag í vikunni, sem nota bene er á morgun úffffffff.
Jæja þetta er nú ekki ástæða þess að ég settist við tölvuna í kvöld. Ég hef nefninlega smá sögu að segja ykkur. Ég fór í leikfimi í kvöld, er loksins búin að finna e-ð annað en ömmuleikfimi. Þetta er svona staður þar sem er body combat, body pumping, body balance.... tja allt þetta skemmtilega dót. Ég var súper ánægð og sprikaða af mikilli innlifun. Já ég er nú ekki vön því að fara í body combat en þar sem sá tími var í boði þegar mig bar að dyrum ákvað ég að láta mig hafa það, ég get jú alveg hlegið að sjálfri mér þegar ég reyni að hoppa og sparka og kýla í takt við hina! Jæja þetta er nú svo sem ekki í frásögu færandi nema hvað mér tókst í allri innlifuninni að gefa sjálfri mér svo rækilega á 'ann að það sér á mér!! Sem betur fer sá enginn til mín þegar ég gerði þetta og sem betur fer er ég ekki komin með nógu mikla "kýltækni" til að rota manneskur! ég samt hentist aftur á bak við höggið frá sjálfri mér og svo skellti ég upp úr en reyndi að gera lítið úr því þar sem enginn sýndi nein viðbrögð. Jæja þetta var nú sögu kornið mitt í kvöld, hvernig er það með ykkur, hefur ykkur tekist að gefa sjálfum ykkur á 'ann svona algjörlega að óvöru?
Já mér datt allt í einu til hugar að skoða aðeins síðuna þar sem rætt er um styrkinn sem ég sótti um í janúar. Ég vissi nú alveg að það var hópur af fólki sem sótti um en 114, úff ég vissi sko ekki að það hefðu verið svo margir.
Best að fara að huga að öðrum fjáröflunarleiðum, hafið þið hugmyndir?
Nei, gerði svo sem ekki ráð fyrir því, ekki ég heldur.
Hin besta helgi að baki
Föstudagur: veitingastaður í enskumælandi vinahópi. Ágætis tilbreyting
Laugardagur: rölt um búðir bæjarins í að ég held alíslensku roki og sól (hlakka til íslenska sumarsins). Kvöldinu varið í frönskumælandi vinahópi á bretonskum bar þar sem barþjóninn talar víkingamál og spilar færeyska tónlist. Ég varð strax vinkona hans þegar hann komst að því að hreimurinn minn var íslenskur en ekki þýskur.
Sunnudagur: rölt um Royat, nágrannabæ (eins og Kópavogur kannski) sem er miklu fallegri en Clermont. Deginum varið í þýskumælandi hópi (ég gat nú lítið sagt nema ja ja og na clar, echt og svona).
Svei mér ég veit ekki hvað hefur orðið um fróðleikinn sem ég tróð í höfðustykkið fyrir fjöldamörgum árum. Trúi því ekki að ég hafi virkilega lært þýsku í 4 ár!!!!
Ólafía, þú svindlar!! Ég var í stik!!! En jæja best að reyna að standa sig í svona klukkleik
4 störf sem ég hef unnið um ævina:
1. Hótel Edda Kirkjubæjarklaustur, sælla minninga
2. Landvörður Skaftafelli
3. Rannsóknastofnun Lanbúnaðarins
4. Landbúnaðarháskóli Íslands (úfff heppilegt að allt var sameinað og sami staðurinn hefur því tvö nöfn haha)
4 bíómyndir sem ég get horft á aftur og aftur:
1. Sound of music(gat það þegar ég var lítil, hef ekki reynt lengi)
2. Lean on me (líka þegar ég var lítil, held eiginlega að ég sé hætt að horfa aftur og aftur á svona dóteri)
3. Man bara ekki meir
4. Sorry
4 staðir sem ég hef búið á:
1. ÍSLAND (bara tveir staðir, Klaustur og Reykjavík)
2. Madrid (bara stutt samt)
3. Frakkland (Paris og Clermont-Ferrand, heillengi alveg)
4. Hin "framúrskarandi" Keele í Englandi
4 sjónvarpsþættir sem mér líkar:
1. ER í gamla daga
2. Survivor
3. og svo á ég ekki sjónvarp og horfi því lítið sem ekkert á þetta
4. ....sem betur fer því annars horfi ég næstum á hvað sem er!!!
4 síður sem ég skoða daglega:
1. Mbl.is
2. Visir.is
3. Ólafíusíða
4. vedur.is (jamm jafnvel þó ég búi í útlöndum)
4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum (líka erfitt að nefna bara 4):
1. Chile
2. Perú
3. Ekvador
4. Grikkland
4 matarkyns sem ég held uppá:
1. Jólamaturinn mmmmmm
2. Gæs með bernissósu
3. Franskir ostat, jamm er að læra á þá
4. Múslí (verð eiginlega að segja það þar sem það hefur verið undirstaðan í mínu fæði um árabil)
4 staðir sem ég vildi heldur vera á núna:
1. Hér í Clermont en bara þegar það er orðið aðeins hlýrra
2. Kannski bara heima þar sem ég get hitt fólkið mitt og vinina
3. Í Afríku, lifi samt af í 2 mánuði í viðbót og þá rætist sú ósk
4. Er bara sátt þar sem ég er samt svona yfir höfuð
Jæja mér sýnist fólk vera í "stikki" þannig að ég get bara ómögulega klukkað neinn
Eitthvað hef ég minnst á það að fuglaflensunni sé tekið hér af stóískri ró. Það var víst bara meiriháttar misskilningur. Nú eru kattaeigendur farnir að panika. Dýraverndunarsamtök hvetja fólk til að hafa kettina í bandi og hafa auga með þeim, auk þess að berja á því að fólk þarf ekki að losa sig við kettina sína!
Það eru komin svona tveir fyrir einn tilboð á kjúklingum um allt og ráðherrarnir borða fuglakjöt í beinni útsendingu á hvaða tíma sólahringsins sem er.
Brandari á að horfa.
Svo gekk ég í gegnum garðinn hér í borg í morgun og þar er búið að taka vatnið úr tjörnunum og girða þær kyrfilega af. Vona að fuglarnir sem svömluðu þarna séu bara komnir í hús!
Já fuglaflensan er víst komin rækilega til Frakklands, meira að segja hingað til Clermont þar sem allt er vanalega með kyrrum kjörum (nei það hefur ekki enn greinst tilfelli hér)
Alveg eru Frakkar sérstakur þjóðflokkur
Vorið snéri við á leiðinni hingað og það er farið að snjóa á ný. Í síðustu viku var ákveðið að fara á skíði þessa helgi en núna (þegar það er farið að snjóa og snjór er jú undirstaða þess að hægt sé að skíða) heyrist mér á öllu að það verði ekkert af þessari ferð. Ástæðan, líklegast verður of mikill snjór!!!!!
Frakkar eru dásamlegt fólk.