Stórtíðindi
Já þá er vorið komið, trén farin að sprengja brumið og fuglarni farnir að syngja. Þetta gerðist allt um leið og hitastigið fór að verða vinalegt og núna er held ég bara kominn sá árstími þegar maður þarf að fara að versla sér pils og sumarjakka!
En það er nú ekki eintóm sæla sem fylgir þessu vori, ó nei. Regínurnar eru komnar á stjá. Var í morgun í miklum rólegheitum að borða morgunmatinn minn og þegar ég var búin að því snéri ég mér við og þar var ein Regína á trítli. Þessi var svo stór að ég bara ákvað að fara út úr eldhúsinu, leifa henni bara að hafa sitt yfirráða svæði, ég get alveg borðað á veitingastöðum sko. Á meðan hún heldur sig fjarri herberginu mínu þá er þetta í lagi sko. Ég er orðin vön þessum litlu og hef ekkert mikið kvartað yfir þeim, tók þær í sátt og ákvað að það væri fínt að hafa nokkrar köngulær til þess að halda öðrum skordýrum úr íbúðinni, lít bara á þær sem hluta af vistkerfi íbúðarinnar. En þessi er ekki velkomin, hún er bara of stór til að ég geti drepið hana og ekki get ég tekið hana og hent henni út, hef aldrei getað. Held að eina leiðin sé að sannfæra meðleigjandann að þetta flykki sé of plássfrekt og að hún verði að losa okkur við Regínu, hún borgar enga leigu og á því ekki rétt á sér!
Annað í fréttum er nú fátt, enda var þetta svoddan áfall í morgun, minnti mig á hinar risavöxnu margfætlur sem komu algjörlega óboðnar í hina frönsku íbúðina mína, fæ alveg ógeðishroll við tilhugsunina. Þar barðist ég sko við alvöru skrímsli.
Já og núna er búið að breyta klukkunni, ég er komin á sumartímann. Er orðin tveimur tímum á undan ykkur heima! Glatað að tapa svona klukkutíma úr sólarhringnum, hvers vegna er ekki hægt að gera þetta á virkum degi þannig að maður tapi ekki dýrmætum frítíma?
Jæja, held að ég ætli að koma mér út í sólina, það er ótrúlega fallegt veður og gott og um að gera að njóta þess. Vona að þið hafið það öll sem best og hef þetta ekki lengra.