Bergrún
Jæja gott fólk
Ég er bara hætt að vera í vondu skapi! Það þýðir víst lítið að eyða lífinu í skapvonsku og sjálfsvorkun, sérstaklega þegar maður hefur ekkert til að vorkenna sjálfum sér yfir!
Ákvað að fresta felti aðeins og er að melta það með mér hvort það taki því að eyða helginni í rölt um heiðar í rigningu. Verð að hugsa málið aðeins betur, vona að Veðurstofan sjái að sér og skelli inn góðveðursspánni fljótlega (já það er sko Veðurstofan sem stjórnar þessu öllu!).
Ég er loksins farin að koma e-u í verk, búin að læra heilan helling í dag og verð að sitja hér áfram og melta það sem ég hef lært svo e-ð af því sitji eftir, svei mér ef þetta nám mitt er ekki bara askoti skemmtilegt :-) Held að ég sé heppin að geta stundað það.
Ætla svo að arka á Helgafellið á eftir, nú er sumarið sko að koma og ég að komast í rétta gírinn, held að júlí hrissti af sér rigninguna og annirnar hellist yfir mig fljótlega, enga meiri lognmollu í mínu lífi takk!
P.s. áhugasamir um kvöldgöngur um nágrenni RVK endilega láti heyra í sér, svo væri líka gaman að fara að baða sig e-t kvöldið í Reykjadal, til hvers að eiga jeppa sem virkar ef ekki til þess að fara aðeins út af malbikinu!
Fullt af bloggi bara! Mér eiginlega leiðist, er loksins að komast af stað í felt og þá setur veðurstofan inn vitlausa spá!
Jæja skiptir kannski ekki máli, ég hlýt að standa af mér rigninguna. Svo hlýtur að vera skemmtilegra að fara bara úr höfuðborginni, hér hef ég ekkert að gera nema hlaupa í hringi og horfa á sjónvarpið... gjörsamlega glatað.
Annars er það að frétta af kagganum mínum að altenatorinn (vona að ég fari rétt með) var bara laflaus og við það að detta úr!!! Já litla gráa greyið mitt var víst aðeins verr haldið en ég hélt. Þessu var öllu kippt í lag í gær auk þess sem blöndunartækin á baðinu (sem voru keypt fyrir 4 árum) voru sett upp! Afreka dagurinn mikli bara.
Jæja ég ætla að halda áfram að undirbúa feltið mitt og vona að góða skapið mitt komi til baka með rigningunni :-)
Annars er það undarlegt þetta skap, kannski ég fái mér bara vítamín við því líka!!!
Vantar vítamín sem kemur blóðinu á hreyfingu og bætir því öll mín böl.
Er farin að þjást af skelfilegu minnisleysi en fór samt að hugsa aðeins og komst að því að hugsanlega hef ég alltaf verið svona, hef líklegast bara verið búin að gleyma því!
Jæja jæja
Búin að vera á Klakanum í rúma 20 daga núna og enn hef ég ekki fundið þann frið sem þarf í beinum mér til að koma e-u í verk! Er búin að komast að því að ég vinn mun betur í Frakklandi, hér er svo margt að gera og margir að sjá sem er jú ósköp gott.
Lítið um stór ævintýr og enn minna um smá, ég er að smella inn í rútínu hér, vakna, hlaupa um náttúrufræðihúsið, heim í smá stund, út að hitta alls konar fólk, dauðþreytt heim, sofa allt of stutt, vakna.........
Dásamlegt þetta íslenska sumar, maður má ekkert vera að því að sofa og þarf ekki næstum því jafn mikinn svefn og á veturna (held nú samt að ég mætti fara að sofa aðeins meira, er að verða komin með bauga niður á miðjar kinnar).
Ráðstefnurnar gengu vel, ég fékk styrk og mun því lifa af næsta vetur, fékk svo að vita í morgun að ég fæ líka styrk frá sendiráðinu (sem einfaldar marga hluti) og bara í stuttu máli sagt þá brosir lífið við mér þessa dagana.
Læt hugsanlega heyra frá mér 1-2 sinnum áður en sumrið verður á enda, lofa þó engu!
Góða skemmtun um helgina, hverjir ætla annars að fara og velta sér upp úr dögginni??
Halló
Ég komst á toppinn (Hvannadalshnjúk) og niður aftur en hef sjaldan verið jafn örmagna og eftir þessa svaðilför (sem var alls engin svaðilför heldur bara hörkuganga). Ef ég má gefa smá ráð þá er það að fara ekki ósofinn af stað í 15 tíma göngu heldur taka sér bara smá tíma í að hvíla sig áður en lagt er af stað.
Annars er ég bara svona hægt og rólega að koma mér fyrir aftur í íslensku samfélagi, fór og sótti bílinn minn á Hellu í gær þó svo að ég sé litlu bættari þar sem hann fer ekki í gang. Því verður nú samt öllu kippt í liðinn og bráðum verð ég komin með fjögur hjól undir mig jibbí!
Gaman að vera komin heim en eitt fer SVAKALEGA í taugarnar á mér og það er hversu litla sjálfstjórn ég hef gagnvart sjónvarpinu. Ég er gjörsamlega heilluð af þessum kassa, sest niður og svo bara kemst ég ekki aftur á fætur og það sorglega er að maður er að horfa á sama þáttinn allt kvöldið, leikararnir breytast en þetta er sama sagan endurtekin aftur og aftur. Þvílík tímaeyðsla. Og svo sit ég og horfi og horfi og hugsa jæja best að ljúka dagsverkinu, svo bara sit ég áfram og fer að fá samviskubit sem stigmagnast svo fram eftir kvöldi þar til ég kem mér loks í háttinn hugsandi að ég hljóti að koma verkefnum kvöldsins fyrir á morgun!!
Fyrsta skrefið í að ná bata er að viðurkenna vandann, er það ekki sagt e-s staðar?
Vonandi gerist hitt af sjálfu sér.
Clermont-París-Keflavík-Reykjavík-Klaustur plan morgundagsins
Klaustur-Skaftafell-Hvannadalshnúkur-Klaustur plan laugardagsins
Klaustur-Reykjavík plan sunnudagsins
Vinna, vinna, vinna plan mánudagsins.
Verð í Reykjavíkinni til 12. júni og er meira en til í að hitta þá sem vilja hitta mig öll kvöld vikunnar :-)
12.-16. júni verður varið í Reykholti á ráðstefnu, það ætti að vera fróðlegt en verst er að ég þarf að halda fyrirlestur þar sem ég hlakka nú ekkert voðalega til. Hefði heldur kosið að líma veggspjald upp á vegg. Ég hugsa bara að það sem ekki drepur mann herði mann, vona að ég komi harðari frá þessum fyrirlestri :-)
19.-23. júni verður önnur ráðstefna en að þessu sinni í Reykjavík og þar sem ég hef leyfi til að klístra póster á vegg. Miklu mannvænna allt saman!
Jæja geri ekki ráð fyrir að þetta veki mikinn áhuga lesenda.
Hlakka til að koma heim, vona að það sé betra veður á Íslandi en hér í Clermont, brrrr ég hélt að ég kæmi heim með varma í kroppnum eftir viku viðdvöl í Frakklandi en nei það er nú fjarri lagi, hér er bara rétt um 10 stiga hiti. Held að ég sé bara frosin í gegn (það tekur því sko ekki að kynda hús þegar það er komið vor!)