Ég er orðin áhyggjufull. Þannig er í pottinn búið að ég held að ég sé að verða full "útlensk".
Ég var að labba í skólann í morgun og eins og alla aðra daga þá mætti ég fullt af fólki með hunda í bandi. Ég tók fram úr einum gömlum karli með hund og gekk áfram og fór svo á endanum inn í bakarí að kaupa mér morgunmat sem er svo sem ekki í frásögu færandi. Nema hvað, þegar ég kem aftur út úr bakaríinu þá sé ég aftur þá félaga gamla karlinn og hundinn. Það sem gerir mig "útlenska" er að ég þekkti þá á hundinum en ekki karlinum!!!
Hversu ópersónulegur er hægt að vera og hversu auðvelt er að horfa í gegnum fólk? Og hvers vegna í ósköpunum horfi ég í gegnum fólk en á hunda??
Að vísu verð ég að viðurkenna að kannski er þetta ekkert "útlenskt" fyrirbæri, Íslendingar eru mjög svo framarlega í því að horfa í gegnum náungann, oftar en einu sinni hef ég lent í því að fólk ætlar hreinlega að ganga í gegnum mig á ýmsum stöðum í Reykjavík, og það hefur ekki einu sinni fyrir því að segja afsakið en hér í Frakklandi afsakar fólk sig ef það kemur aðeins inn á "manns persónulega svæði" þ.e. aðeins of nálægt manni.
Já á endanum er ég kannski orðin "útlensk" vegna þess að mér finnst Íslendingar ókurteisari en Frakkar.