26. janúar 2007
Ísland í öðru sæti í milliriðli I á HM í Þýskalandi, snjórinn farinn úr Reykjavík og rigningin tekin við, litli hvíti bílaleigubíllinn kominn aftur heim til sín á Hertz, ferðataskan opin á Reynimelnum og ég sit einbeitingarlaus fyrir framan tölvuna í Öskju.
Frekar tilgangslaus dagur þar sem ég nenni ekki að byrja á neinu, finnst ekki taka því þar sem ég er að fara á morgun. Ég er farin að hlakka til, það verður gott að setjast á skrifstofuna í Frakklandi með græjuna mína fyrir tölvuna og hætta að fá illt í axlirnar. Gott að rifja upp frönskuna og spjalla við stelpurnar sem ég leigi með. Gott að fá sér baguette og almennilegan ost. Gott að ganga um í logni á hverjum degi. Gott að losna við íslenska brjálæðið þó ég sakni þess nú oftast fljótt aftur. Gott að losna við alla morðþættina í sjónvarpinu sem ég ræð ekki við að slökkva á. Gott að kaupa ódýran mat á ný.
Þrátt fyrir þetta þá er ýmislegt gott við Ísland líka, helst af öllu vildi ég geta sameinað þessa tvo staði. Eða í það minnsta haft þá aðeins nær hvor öðrum þannig að hægt væri að njóta þess besta frá báðum stöðum samtímis. Hver veit, kannski ég eignist einkaþotu fyrir slysni einhvern næstu daga....
Er að verða búin að kveðja þá sem kvaddir verða, síðasti skiplagði "hittingurinn" núna eftir 30 mínútur. Hinir sem ekki verða kvaddir verða bara kvaddir næst því það er jú nóg af ferðum framundan :-)
Endilega kíkið nú í heimsókn, komið og sjáið hina frönsku paradís sem togar í mig og kvelur til skiptis.