Bergrún
Jæja þá
Ég er mætt á klakann og búin að hafa það gott hér í nokkra daga. Búin að heilsa upp á vini og kunningja en eins og vanalega þá er dagskráin þéttskrifuð en það fer nú að hægjast um í næstu viku. Ég hef ekki frá neinu að segja, dagarnir hverfa einn af öðrum í Öskju og við Siggilitlislyddujeppi skautum um götur borgarinnar á sumardekkjunum.
Það er greinilegt að ég þekki ekkert nema stuðbolta, slegist um plássin í dansmaraþoninu.....
Ég læt þetta ekki á mig fá, þekki aðila sem hægt er að treysta á og hlakka til að skella mér á Nasa á föstudagskvöldið. Það verður geggjað stuð :-)
Ykkur hin hlakka ég svo til að sjá í dagsbirtunni næstu þrjár vikurnar :-)
Jæja gott fólk
Einn og hálfur dagur eftir í frönsku samfélagi og svo kemur ferðadagurinn mikli 23. mars. Ég var rétt í þessu að komast að því að UPPÁHALDS ballhljómsveitin mín mun spila þetta kvöld. Ég væri sko til í að fara og dansa af mér lappirnar.
Auglýsi hér með eftir sjálfboðaliðum í maraþondans að kveldi 23. mars. Annars fer ég bara ein, það verður nóg af fólki hehe
Ég veit ekki hvað ég á að halda, hér snjóar og snjóar! Ég sem er búin að monta mig af vorveðrinu hér síðustu daga. Það koma greinilega snembúin páskahret á fleiri stöðum en Íslandi. Kannski minnið bregðist mér en ég man ekki til þess að hér hafi fest snjó í borginni í allan vetur fyrr en núna, og vorið kemur formlega á morgun, 21. mars......
Ég verð að viðurkenna að ég er miklu tilbúnari að vera í snjó og slabbi á Íslandi í mars-apríl heldur en hér í Frakklandi. Verst er að ég er ekki í nokkru stuði til að gera það sem ég á að gera áður en ég legg í'ann heim á leið.
Best að hefjast handa og ákalla andann....
Jæja gott fólk, nóg er komið af stolnum setningum frá "merkismönnum fyrri alda". Nú er komið af sögum af sjálfri mér :-)
Ég hef verið á faraldsfæti síðustu helgar. Ég fór loksins og kíkti á stórborgina Lyon um daginn og sé ekki eftir þeirri heimsókn. Þetta er stórskemmtileg borg með leynistígum og tveimur ám sem er algjör lúxus, sérstaklega þar sem hér í Clermont er ekki ein einasta á og ég sakna vatnsins óskaplega. Ég var svo heppin að hafa "local guide" með mér og við hlupum um allt og skoðuðum og skoðuðum, enduðum svo á "traditional restauranti" og átum og drukkum eins og sönnum Frökkum sæmir. Eftir að hafa etið á okkur gat lá leiðin út á lífið og var það hin besta skemmtuna að sjá nýja staði og nýtt fólk, ekki alltaf þessa sömu gráu Clermontois..... sem eru nú vitanlega ekkert gráir. Kvöldið endaði svo á því að ég fékk gosdós í hausinn þegar við löbbuðum heim, já vinarhótin eru jafn mismunandi og "vinirnir" eru margir. Sem betur fer var þetta tóm dós og ég ákvað að taka þessu sem óviljaverki, punktur.
Núna um helgina fór ég svo til borgarinnar St Etienne sem er á milli Lyon og Clermont. Þar er vinkona mín staðsett sem hefur verið hér í Clermont síðustu árin. Það var ósköð notalegt að hitta hana og spjalla við hana um daginn og veginn og svo reddaði hún okkur hjólum og við hjóluðum allan laugardaginn. Það var alveg frábært dagur, við hjóluðum upp upp upp á fjall upp á fjallsins brún og runnum svo niður niður niður niður alveg niður næstum því á tún! Fórum sem sé að skoða tvær stíflur sem voru byggðar 1846 ef ég man rétt. Lónin voru bara nokkuð falleg og ég reyndi að vera jákvæði í garð stíflumannvirkja. Jæja á heimleiðinni gátum við svo látið okkur renna niður hæðina sem við paufuðumst upp fyrr um daginn og það væri sko alveg þess virði að koma sér þarna upp aftur til þess eins að láta sig renna niður aftur. Ég held að við höfum brunað niður í 10-15 mínútur, dásemdin ein :-)
Um kvöldið fórum við svo á írskan pub til að halda upp á St Patricks day. Hittum frönsk hjón, vinafólk vinkonunnar og kvöldið var bara mjög skemmtilegt í alla staði. Verst hvað maður angar af reykingarlykt þegar heim kemur. En svona er nú bara lífið.
Nú styttist óðum í heimkomuna, bara 3 dagar eftir til að klára það sem klára þarf, ákveða hvað er best að koma með heim í þessari ferð og pakka því niður. Klára að tæma ískápinn og fleira í þeim dúr, já það er alltaf gaman að þessum ferðalögum. Ef e-r á geislunarvél eða annað undratæki til að yfirtaka lestir, flugvélar og önnur "seinfara" samgöngutæki má sá hinn sami endilega hafa samband við mig, ég geri hvað sem er til að losna við þessi pintingartæki!!!
Bonne soirée a toutes et tous
Loksins fann ég fleyga setningu sem vit er í og það var ekki ómerkari maður en Winston Churchill sem sem fleygði henni:
Success is the ability to go from one failure to another with no loss of enthusiasm.
Ég klúðra sko oft ýmsu og geri alls konar "failures", þarf því bara að halda í eldmóðinn til þess að öðlast "success". Það ætti ekki að vera svo erfitt :-)
Churchill var svei mér maður að mínu skapi (þegar hann missti þetta út úr sér í það minnsta, annars ætla ég ekki að tjá mig meira um afrek hans og afglöp).
Eldmóður er lykilinn.
Það er sí og æ verið að benda mér á að ég hafi safnað að mér ófáum árum.
Ég var að kvarta yfir of miklu flandri á sjálfri mér og þá var glott að sagt já þú er líklegast farin að eldast.
Ég fékk stórt og mikið áfall yfir ákveðnum fréttum og þá var horft á mig stórum augum og sagt já maður verður betur var við alvöru lífsins þegar maður eldist.
Oftar en ekki er mér svarað á þessa leið þessa dagana. Samt held ég nú að 28 ár sé alls ekkert hár aldur þó maður geti verið búinn að upplifa ýmislegt og afreka enn fleira á þeim tíma. Mér líður yfirhöfuð alveg eins og þegar ég var átján ára og líklega leið mér þá eins og þegar ég var tólf (geng ekki alveg svo langt að segja átta). Ég er ekkert klárari við að gera skattaskýrsluna mína í dag heldur en ég var, ég nenni ekkert frekar að setja mig inn í Baugsmálið og get ekki enn þulið upp nöfn ráðherranna. Ég gæti tekið þetta nærri mér og verið ósátt við sjálfa mig fyrir að vera því sem næst ótækur þjóðfélagsþegn en ég geri það samt ekki (eða mjög sjaldan) og ætla mér ekki að hefja þá iðju.
Ég kann nefninlega svo margt annað, meðal annars að fara út í rigningu og njóta þess, að sjá fegurðina í því að moka holu og að vera á mörkum þess að verða hræðilega væmin... hehe. Jæja þetta kemur aldri ekkert við lengur. Í stuttu máli sagt þá ætla ég að halda áfram að varðveita í mér barnið þó fólk bendi mér á að aldurinn sé farinn að færast yfir þessa 28 ára síungu snót.
Ég er á veiðum, fiska eftir kommentum og þarf þar af leiðandi að grafa djúpt í huga minn til þess að finna málefni sem vert er að kommenta á.
Ætla að velta upp spurningum um orðaskilgreiningar. Kunningi, vinur, sannur vinur. Hvernig flokkar maður fólk í þessa hópa, hvað þarf hver og einn að uppfylla til þess að lenda í hverju mengi fyrir sig og geta þessi mengi skarast? Getur fólk flakkað á milli eða er maður dæmdur endanlega við fyrstu kynni?
Nú hlægja þeir sem hlægja vilja, í öðrum hlakkar og við hin sem ekkert skiljum hristum hausinn. Mér finnst heldur súrt sem aðalritari þessarar síðu að vera í hópi þeirra fávísu.....
Fjöruskröggur þessu er beint til þín, ég vil fá vísbendingu númer tvö, og mundu nú að heilasellurnar mínar eru mjög uppteknar og því verða einföldustu gátur flóknar í mínum augum;-)
There are several good protections against temptations, but the surest is cowardice. Þetta sagði eða skrifaði Mark Twain samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum.
Nú er illt í efni, það er hvorki jákvætt að vera huglaus né að standast engar freistingar. Ég ætla að taka þann pól í hæðina (hmm) að vera nógu huguð til að standast ekki freistingar. Ég held nefninlega að þegar við lítum aftur yfir lífið þá sjáum við ekki eftir neinu nema því sem við höfum ekki gert. Auðvitað gerir maður vitleysur annað slagið en þær fara bara í reynslubankann og sjaldnast sér maður nú eftir að hafa öðlast reynslu.
Jamm, stökkvum bara á draumana og hættum að velta okkur upp úr spurningum eins og á ég eða á ég ekki? Hvers vegna gerði ég þetta en ekki hitt? Látum vaða og hættum þessu hugleysi. Freistingar eru af hinu góða, flestar, eru þær ekki ákveðnir draumar? Það er allt hægt ,og þá meina ég ALLT, ef viljinn er fyrir hendi.
og jaaa þá er víst líka hægt að standast freistingarnar geri ég ráð fyrir og það ætti því að vera jákvætt ef maður vill það endilega, en nú er ég farin að tala í hringi. Þið gerið það sem þið viljið auðvitað, ég ætla að elta draumana og falla í freistingu /ar og telja mig mjög hugaða bara vegna þess að Mark Twain sagði að hugleysi væri besta vörn gegn því að falla í freistingu.
Áfram gakk