Bergrún
Sund í hádeginu, draumur í dós
Nú er ég búin að finna leið til að sigrast á eirðarleysinu. Vinna frá 9-12, synda og borða frá 12-14, vinna frá 14-??
Ég smellti mér í þessa rútínu eftir letihaugahelgi þar sem ég rétt hafði að drösla mér með bók út í garð báða dagana og komast í skjól áður en úrhellið hófst seinnipartinn.
Það gerðist svo sem ekkert merkilegt í þessari sundferð nema það að ég missti lykilinn að skápnum.... ég kenni því um að ég á ekki sundgleraugu að ég gat ekki kafað eftir þeim, reyndi það ekki einu sinni en svo heppilega (eða óheppilega) vildi til að ég missti lykilinn akkúrat fyrir framan sundverðina. Eiginlega leit þetta svona út eins og yrði að finna mér aðferð til að ná athygli þeirra og væri tilbúin að gera hvað sem er til að láta bjarga e-u, lyklinum þar sem ég gat ekki farið að setja á svið eigin drukknun! Hvað sem þeir hafa haldið þá var það lán í óláni að ég missti fjandans lykilinn þarna, svo nenntu þeir ekki einu sinni að stinga sér heldur trufluðu næsta mann með sundgleraugu....
Jæja nóg um það, best að smella sér í þriðja hluta rútínunnar
Jæja þá í það sinnið
Mig langar í ferðalag, sjá og gera nýja hluti.
Annars lenti ég (eða réttara sagt kom mér í) í samræðum við múslíma um daginn. Sá hélt því fram að öll stríð heimsins væru peningum að kenna. Ég gat ekki setið á mér (eins og ég hefði átt að gera) og spurði hvort trúarbrögð spiluðu ekki oft stóra rullu í stríðsbraski líka. Ég var alls ekket að meina að það væri frekar hans trú en mín sem um væri að kenna en eftir að hafa misst þetta út úr mér mátti ég taka á mig allt mannfall í Írak og Afganistan síðustu ár, ég varð aðalstuðningsmaður Bush Bandaríkjaforseta og bara svei mér þá illskan uppmáluð. Stundum er betra að sitja á sér og segja ekki neitt.
Eftir að maðurinn var búinn að hella þessu yfir mig hélt hann ótrauður áfram og sagði mér hvað hann væri góður maður, það er ekki til illt í honum, ekki einu sinni örfáar skuggalegar hugsanir, allt hvítt og tært og hann fyrirgefur öllum allt. Já ætli mér hafi ekki verið fyrirgefin manndrápin í Fjarskanistan eftir allt saman.
Ég verð enn og aftur að vera ósammála þessum annars ágæta manni. Ég held að við eigum öll okkar skuggahliðar. Meirihluti mannkyns er góður en þrátt fyrir að við séum flest góðar manneskjur og samfélgasþegnar þá stend ég í þeirri trú að í okkur öllum berjist gott og vont. Líklegast eru þessi öfl ekki í sama hlutfalli í öllum og sumir eru betri/verri en aðrir (þó ég viti ekki alveg við hvað ég er að miða þegar ég segi þetta) en í bestu manneskju held ég að það blundi ætíð e-ð illt, alveg eins og í þeirri verstu má ávalt finna e-ð gott.
Til þess að sanna þetta (tja, það má deila um hvort þetta kallist sönnun) ætla ég að taka lítið heimatilbúið dæmi, niðurstöður óformlegarar könnunar sem ég hef framkvæmt í tveimur löndum. Fyrr á árinu (hvort sem það var á árinu 2007 eða skólaárinu 2006-2007) skrifaði ég aðeins um freistingar. Eftir þessi skrif gat ég ekki hætt að hugsa um tengsl drauma og freistinga svo ég fór að spyrja fólk hver þeirra sýn væri á þessi tvö orð. Heildarniðurstaðan var sú að draumar séu jákvæðir en freistingar neikvæðar. Öll eigum við okkur drauma og reynum að standast freistingar sem leiðir til þess að í okkur blundar gott og illt ;-)
Já röksemdafærsla okkar er ekki alltaf sú hin sama en ég er sátt við niðurstöðuna sem ég hef komist að hér á þessum föstudagseftirmiðdegi. Nú er eina spurningin sem eftir stendur ósvarða sú hvert ég fer í ferðalag, hvenær og síðast en ekki síst hvort af því verður.
Góða helgi gott fólk (og illt)
Skemmtileg helgi að baki, ég fór í ferðalag á laugardeginum og sá hluta af Frakklandi sem ég hef aldrei séð áður (og þeir eru nú margir staðirnir sem ég á eftir að sjá hér í þessu landi). Það er ótrúlegt hvað landslagið hér er breitilegt.
Í gær fékk ég mér göngutúr upp að Puy de Dome, nennti ekki upp á topp þar sem ég var með teppi og nesti í bakpokanum. Settist bara niður við fjallsræturnar og skrifaði nokkrar hugsanir í bókina mína. Á leiðinni lenti ég í brenninetlu árás, ég er ekki frá því að þær hafi komið til mín, skil ekki hvers vegna ég hefði átt að dragast að þeim.....
Svo fékk ég flís í puttann og náði henni fljótt og örugglega út, en í morgun kom ég auga á undarlegt sár á baugfingri vinstri handar (já ómerkilegar staðreyndir verða stundum að fá að fljóta með). Ég hugsaði ekkert um þetta sár þar til núna rétt áðan, þá áttaði ég mig á því að þetta var bara ekkert sár heldur önnur flís... Ekki skil ég hvar ég verð mér úti um allar þessar flísar!
Annars er eirðarleysið að gera mig vitlausa, nenni ekki nokkrum hlut. Best að fara að setja sér markmið......
Já svo sumar og vetur frusu saman á Fróni. Það eru nú góðar fréttir, mun betri en þær sem maður fékk í gær. Ég gat ekki annað en hugsað um texta Utangarðsmanna (eða var það Egó eða bara Bubbi): Reykjavík brennur....
Eitt finnst mér nokkuð skemmtilegt, þegar sumarið heldur innreið sína á Íslandi er vorið hér í Frakklandi rétt nýhafið. Er þetta ekki öfugsnúið?
Hvers vegna eru ekki formlega 4 árstíðir á Íslandi? Getum við ekki alveg eins blekkt okkur og sagt að það sé vor eða haust um hávetur alveg eins og að halda því fram að sumarið komi með sumardekkjunum?
Er ekki næstum því jafn kjánalegt (en bara næstum) að sumarið byrji e-n ákveðinn dag og að kveikja á kyndingunni ákveðinn dag? Mér datt þetta allt í einu til hugar þar sem ég hef fussað og sveiað yfir þessu háttalagi Frakka að fara ekkert eftir veðri og vindum heldur bara eftir dagsetningum, líklega erum við Frónbúar ekkert betri en Frakkarnir eftir allt saman, og við þessa hugsun roðna ég bara næstum því, ég hef greinilega stundað sjálfsblekkingu hingað til og bara töluvert mikla. Líklega er auðveldara að sjá lurkinn í auga náunganns en flísina í eigin (já ég man ekkert nákvæmlega hvernig þetta er sagt, þið bara segið mér það ef þetta þarfnast leiðréttingar).
Ég vil nú alls ekki taka af ykkur sumargleðina og það má vel vera að ég haldi daginn hátíðlegan og fari aðeins út í franska vorið, því eins og ég hef áður sagt þá erum við ekki svo heppin hér að taka á móti sumri strax, og svei mér ef ég verð ekki bara að sætta mig við það að upplifa ekki franska sumarið því ég mun yfirgefa Frakkland þegar hér verður enn formlega vor.
Gleðilegt sumar allir saman og við skulum vona að sumar og vetur hafi nú frosið nægilega vel saman og sumarið 2007 verði það besta í mannaminnum (e-ð gott hljótum við að geta fengið frá þessum gróðurhúsaáhrifum)
Margt má gera á mörgum árum
Stundum hverfur tíminn án þess að maður sjái nokkrar breytingar. Stundum sér maður að margt hefur gerst. Ég var minnt á það í dag að það eru tíu ár frá því að minn árgangur í Kvennaskólanum hélt Peysufatadaginn hátíðlegan en það er einn eftirminnilegasti og skemmtilegasti dagur menntaskólaáranna í mínum huga. Þetta þýðir að það eru níu ár frá því að ég útskrifaðist úr menntaskóla og það er nú svolítið langur tími finnst mér. Ég hef gert svo ósköp margt á þessum árum, held bara að ég hefði varla getað varið þeim betur.
Haustið eftir útskrift fór ég í interailferðalag um Evrópu og heimsótti England, Frakkland, Ítalíu og Grikkland, svaf í lestum og lifði á pizzum og philadelphia smurosti (sem ég hef ekki getað bragðað síðan). Ferðalagið endaði svo þannig að flugmiðanum heim var breytt og ég settist að í París þar sem ég dvaldist að mestu næstu tvö árin (með jóla- og sumarfríum).
París var frábær og þar var gott og gaman að vera, ég vildi ekki skipta á þessum tíma fyrir nokkuð annað. Það er nánast ómögulegt að vera einn í þessari borg en ég fann mér þó einn stað, turninn í Notre Dame þegar nógu kalt var úti. Þarna fór ég á fyrsta alvöru fótboltaleikinn minn, sá Frakkland-Ísland á Stade de France leikvellinum og skemmti mér vel þrátt fyrir íslenskt tap (við skoruðum þó 2 ef ekki 3 mörk í leiknum!). Eftir leikinn reyndi ég í fyrsta og eina skiptið á ævinni hvernig það er að verða fyrir táragasi, sem er, svona ykkur að segja, fremur leiðinleg reynsla. Dvöl minni í París lauk svo fremur snögglega þegar "hin himneska au paire stúlka" féll til jarðar :-) Ágætis skellur sem ég hlæ að í dag en hló þó ekki svo mikið að á þeim tíma.
Við heimkomuna, sem var frekar nöpur og ég fékk oftar en ekki þá spurningu hvers vegna ég færi ekki bara út aftur, tók við hálft ár í "alvöru" vinnu, fyrsta starfið sem var ekki bara sumarstarf. Þarna var um að ræða leikskólann Sæborg og hafði ég ekkert nema gott af tímanum þar. Ég hefði aldrei trúað að hægt væri að læra áttatíu nöfn á einni viku. Þetta sumar fór ég í fyrstu heimsóknina til Parísar og sá nú Tinu Turner á Stade de France leikvellinum og horfði á meiri fótbolta. Í þetta sinnið urðu Frakkar Evrópumeistara (held ég frekar en Heimsmeistarar????) eftir að vinna Ítali með gullmarki. Þvílík gleði sem fór um borgina, ég hef sjaldan orðið vitni að öðru eins. Var ekki mjög kát að þrufa að snúa heim aftur :-)
Um haustið hófst svo nám mitt í jarðfræði við Háskóla Íslands. Svei mér ef þessi ákvörðun mín hefur ekki haft töluverð áhrif á líf mitt. Næstu þrjú árin bjó ég að mestu á Þjóðarbókhlöðunni held ég barasta þrátt fyrir að ég hafi slitið mig frá henni í um hálft ár þegar ég flutti til Keele í Bretlandi. Þangað ætla ég aldrei að koma aftur, aldrei. Ég hefði bara ekki trúað því að annar eins staður væri til, nema vegna þess að ég reyndi sjálf! Sem betur fer var góð vinkona í Bristol á sama tíma og margt var braskað í Bristol og öðrum breskum borgum en við fórum m.a. á fótboltaleik í Cardiff þar sem Stoke spilaði við "óþekkt lið" og komst upp úr e-i deild ef ég man rétt! Fyrsta háskólasumarið fékk ég vinnu við landvörslu í Skaftafelli og hef ég sjaldan unnið aðra eins vinnu, leið bara eins og ég væri í launuðu sumarleyfi. Annað og þriðja háskólasumarið var ég svo heppin að fá vinnu á Rala og þar kynntist ég allskonar öðlingum og ég fer enn í heimsókn til að kíkja á þau, þrátt fyrir að RALA sem slík sé látin, blessuð sé minning hennar. Ekki man ég eftir miklum ferðalögum á þessum tíma, það hafa líklega ekki verið merkileg ferðalög ef e-r hafa verið!
Sem lokaverkefni í jarðfræðinni valdi ég gjósku, líklega önnur mótandi ákvörðun í lífi mínu. Eftir útskrift var ég alveg tilbúin að fara að vinna en e-a hluta vegna sótti ég um námsstyrk til Franska sendiráðsins sem ég síðar fékk og þá varð ekki aftur snúið, ég varð að fara til Frakklands í mastersnám, að stúdera meiri gjósku. Hvaða hugdetta þetta var veit ég ekki og skil ekki enn. Ég, mállaus með öllu ákvað að fara og læra eldfjallafræði í borg sem ég vissi ekki einu sinni að væri til hvað þá hvar hún væri. Enda var stöðugt gert grín að því að ég vissi ekkert hvert ég væri að fara. Þrátt fyrir það ákvað ég að kaupa minn fyrsta bíl og taka Norrænu og keyra svo niður til France. Ég fór bara svei mér þá í víking!!! Og þvílík hetja sem ég var, ég skil þetta varla enn, hvernig ég komst á leiðarenda verður mér líklega alltaf ráðgáta.
Með franska skólanum fór ég til Ítalíu og skoðaði "les iles eolien" og alpana og svo var ég svo ljónheppin að kynnast hér strák sem var alltaf tilbúinn að fara í göngutúra og allskonar ævintýraferðir. Seinni hluta árs vorum við á faraldsfæti um nágrenni Clermont (sem ég veit orðið nokkurn vegin hvar er staðsett) og brugðum okkur svo einstaka sinnum í ögn lengri ferðir. Það sem við gerðum m.a. var að ganga í ölpunum til klukkan fimm um nótt í snjó og kulda vegna þess að kofinn sem við ætluðum í var ekki alveg eins nálægt og áætlað var (nei það var ekki gengið hægar en áætlað var....). Við vorum 4 í þessari ævintýraferð og sem betur fer voru strákarnir vel útbúnir því við þurftum að láta okkur síga niður hamra, klöngrast yfir svæði sem snjóflóð hafði farið um, ganga snjó sem náði okkur upp á mið læri og ég veit varla hvað og hvað. Eintómar góðar minningar í dag, þó mér hafi verið orðið vel kalt og sá kofa út úr hverjum einasta steini á leiðinni. Eins fórum við í Pyrenafjöllin og ætluðum að gista í kofa (nú var komið vor og mun hlýrra) en þegar við komum þangað var bara e-r fjölskylda búin að eigna sér kofann og gera að sumarbústað þannig að ekki gátum við ruðst inn, við máttum því snúa við og sækja tjaldið. Já Frökkum er trúandi til alls.
Eftir þetta ævintýralega ár í Frakklandi (og meistaragráðunni ríkari) hélt ég heim á leið og kom við í Færeyjum og skoðaði mig þar um. Við tók ár (tæpt) í vinnu á RALA sem að vísu breytti um nafn og varð Landbúnaðarháskóli Íslands (heppilegt að geta skellt tveimur nöfnum á ferilskránna!). Um veturinn bauðst mér svo að fara í áframhaldandi ævintýraferð með franska ævintýramanninum en í þetta sinnið varð Suður-Ameríka fyrir valinu, ögn ævintýralegra en Frakkland. Þetta ferðalag er eitt það skemmtilegasta sem ég hef farið í en ég ætla ekki að rita meira um það hér því hægt er að lesa sér til um það í eldri færslum. Svo tók við grár hversdagsleikinn á Íslandi en ekki stóð hann lengi því um vorið lá leiðin til Vínarborgar þar sem ég mátti gjöra svo vel að halda fyrirlestur á alþjóðlegri ráðstefnu. Sjaldan hef ég verið jafn stressuð (en oft hef ég verið nálægt því). Næsta haust lá leiðin aftur til Frakklands og nú í doktorsnám sem stendur enn og enn er gjóskan rannsóknarefnið.
Fátt bar til tíðinda í Frakklandi en þarna um vorið rættist gamall draumur, ég fór í Afríkuferð og er sú ferð ógleymanleg. Þarna sá maður svo margt sem maður hefur séð í myndum og bókum en trúði varla að maður myndi sjá í raunveruleikanum. Nú ári seinna poppa enn upp minningar frá þessari heimsálfu og ég er næstum viss um að ég á eftir að leggja leið mína um hana í framtíðinni. Hér má bæta því við að Botswana varð e-r meistarar í fótbolta þegar við vorum þarna stödd, þeir fögnuðu á svipaðan hátt og Parísarbúarnir forðum daga. Aldrei hefði ég trúað að fótbolti yrði rauði þráðurinn í upplifunum lífs míns!!!
Já svona er það, þetta síðasta ár hefur verið tíðindalítið, ég hef farið fram og til baka á milli Íslands og Frakklands eins go jójó, verið í tilvistarkreppu yfir því að eiga hvergi heima og upplifað Bandaríkin og Holland í fyrsta sinn.
Allt er þetta reynsla sem hefur gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag og ég vona að næstu níu ár verði jafn fjölbreytileg og áhugaverð og þau níu sem hafa liðið frá því ég tók í höndina á skólameistaranum mínum í Kvennaskólanum vorið 1998 (gaman að segja frá því að í dag þekki ég þann eðalmann mun betur en ég gerði þá vegna þess að hann hefur verið með í nokkrum feltferðum). Hér læt ég þessari ferð minni um fortíðina lokið og minni þá lesendur sem finnst þetta löng færsla á þá staðreynd að enginn er neyddur til þess að lesa það sem hér er ritað og þessi skrif mín eru einungis gerð fyrir mig þó gaman sé ef aðrir njóti.
jamm og jæja humm og ha
Þá er ég komin út aftur í sólina og sumarið. Hér er allt orðið grænt og þar af leiðandi vænt og ég bara næstum því sólbrann þegar ég beið eftir lestinni í París í dag.
Ágætt að vera komin út aftur og það var gaman að hitta skvísurnar mínar hér og fá fréttir af þeim. Nú taka við tveir mánuðir við ströng störf (sem verða þó ekkert strangari en gengur og gerist hjá fólki almennt) og ég er að reyna að lofa mér því að vera dugleg að nota helgarnar til þess að njóta sumarblíðunnar sem ég hef ákveðið að verði ríkjandi þetta vorið.