Já svo sumar og vetur frusu saman á Fróni. Það eru nú góðar fréttir, mun betri en þær sem maður fékk í gær. Ég gat ekki annað en hugsað um texta Utangarðsmanna (eða var það Egó eða bara Bubbi): Reykjavík brennur....
Eitt finnst mér nokkuð skemmtilegt, þegar sumarið heldur innreið sína á Íslandi er vorið hér í Frakklandi rétt nýhafið. Er þetta ekki öfugsnúið?
Hvers vegna eru ekki formlega 4 árstíðir á Íslandi? Getum við ekki alveg eins blekkt okkur og sagt að það sé vor eða haust um hávetur alveg eins og að halda því fram að sumarið komi með sumardekkjunum?
Er ekki næstum því jafn kjánalegt (en bara næstum) að sumarið byrji e-n ákveðinn dag og að kveikja á kyndingunni ákveðinn dag? Mér datt þetta allt í einu til hugar þar sem ég hef fussað og sveiað yfir þessu háttalagi Frakka að fara ekkert eftir veðri og vindum heldur bara eftir dagsetningum, líklega erum við Frónbúar ekkert betri en Frakkarnir eftir allt saman, og við þessa hugsun roðna ég bara næstum því, ég hef greinilega stundað sjálfsblekkingu hingað til og bara töluvert mikla. Líklega er auðveldara að sjá lurkinn í auga náunganns en flísina í eigin (já ég man ekkert nákvæmlega hvernig þetta er sagt, þið bara segið mér það ef þetta þarfnast leiðréttingar).
Ég vil nú alls ekki taka af ykkur sumargleðina og það má vel vera að ég haldi daginn hátíðlegan og fari aðeins út í franska vorið, því eins og ég hef áður sagt þá erum við ekki svo heppin hér að taka á móti sumri strax, og svei mér ef ég verð ekki bara að sætta mig við það að upplifa ekki franska sumarið því ég mun yfirgefa Frakkland þegar hér verður enn formlega vor.
Gleðilegt sumar allir saman og við skulum vona að sumar og vetur hafi nú frosið nægilega vel saman og sumarið 2007 verði það besta í mannaminnum (e-ð gott hljótum við að geta fengið frá þessum gróðurhúsaáhrifum)