Jæja það kom að því að ég gerði eitthvað sem vert er að segja frá
Ég fór í mikla ævintýraferð í gær. Rétt áður en ég ætlaði að leggja af stað í skólann fékk ég truflun á msn-inu (því dýrðarinnartæki...) og mér var boðið með í ferð yfir í næsta "hrepp". Þar átti að fara í e-ð sem kallast Via ferrata og mér skildist að um væri að ræða svona tilbúna Tarzanleið á milli trjátoppa. Mér leist strax mjög vel á þetta og ákvað að skella kæruleysinu í botn og nota tækifærið.
Eftir um tveggja tíma akstur komum við á áfangastað. Og viti menn, Via ferrata hefur ekkert með tré að gera. Þetta er svona leið sem búið er að útbúa í snarbröttum klettum og jafnvel alveg lóðréttum. Maður er að vísu alltaf fastur við e-a línu og búið er að setja upp fullt af hjálpartækum þannig að ekki er um "pjúra" klifur að ræða en engu að síður þá eiginlega missti ég andlitið og svitnaði köldum svita við að sjá klettinn. Mér hefur aldrei verið vel við klifur og er stundum sjúklega lofthrædd svona fyrir þá sem ekki vita.
Ég ákvað að harka af mér og leigði klifurbelti og gekk af stað. Sagði eftir 3 mínútur við ferðafélagana að líklegast væri best að ég fylgdi þeim ekki eftir en lét þau tala mig inn á að koma með. Svo bara varð allt hræðilegra og hræðilegra. Það varð ómögulegt að snúa til baka og alveg ósjálfrátt fór ég að taka hörku "Elvis" þarna í klettunum. Titraði og skalf eins og Elvis á sviðinu forðum daga, geri ráð fyrir að hann hafi þó ekki verið með svo mikinn sviðsskrekk að dansinn hafi verið ósjálfráður eins og hjá mér í gær. Svo kom að því að ég fann mér litinn klettaskúta sem ég gat skriðið inn í og vá hvað mér leið vel þar. Held að ég hefði helst viljað halda þar til til æviloka. Sá samt að mér og að ég yrði að koma mér úr sjálfheldunni ein og sjálf. Á endanum komst ég í gegnum þessa þraut og svei mér ef það hefur ekki tekið töluvert á ferðafélagana að hafa svona skræfu í eftirdragi.
Á heildina litið er ég mjög ánægð með þennan dag. Loksins held ég að ég hafi náð jafnvægi milli þreytu á sál og líkama. Þetta var nákvæmlega það sem ég þrufti og í rauninni held ég að ég ætti að koma mér oftar í þessar aðstæður. Vanalega hefur maður að bjarga sér, það hefur tekist hingað til og ég sé ekki hvers vegna það ætti ekki að ganga í næstu skipti líka.
Daginn enduðum við í smá kofa uppi á nýju fjalli þar sem borðuð var 3 rétta máltið og herlegheitunum skolað niður með rauðvíni.
Ps. líklega hef ég sjaldan orðið svona hrædd því í alla nótt var ég í mikilli lífshættu við það að koma í veg fyrir fall fram af björgum.....