Mikið eruð þið heppin sem enn hafið ekki komið til Parísar :-) Þið eigið dásamlegustu borg í heimi eftir. Helgin var frábær í einu orði sagt.
Ég mætti á staðinn á föstudagskvöldinu og fékk gistingu hjá vini úr DEA náminu hér í Clermont. Fór með honum að hitta vini hans í fjórða hverfi, hverfinu þar sem allir "sætu strákarnir" halda sig. Þarna hitti ég sko vel gay drengi og hló dátt með þeim. Fór svo með þeim á fyrsta hommabar sem ég hef farið á og það var undarleg upplifun, fullur staður af strákum sem bara sáu mann ekki en góndu samt stóreygðir á mig og veltu fyrir sér hvaða erindi ég ætti þangað inn.
Á laugardeginum fór ég með vini vinar míns að versla og skellti mér svo á West Side Story í Theatre de Chatelet. Sá að vísu bara helming verksins þar sem ég var þannig staðsett að einungis helmingur sviðsins var sýnilegur, sem betur fer bárust lögin um allt svo ég gat fylgst með og ímyndað mér það sem ég ekki sá. Mjög gaman þrátt fyrir allt. Eftir sýninguna hitti ég vin minn og enn einn vin hans og við fórum á ótrúlega skemmtilegan stað, best að skrifa nafnið hér svo ég muni það seinna meir, La Merle Moqueuse, í 13 hverfi nálægt Place d´Italie og ein gatan nærri barnum er Rue de Puoy (man það vegna þess að hér eru Puy um allt hehe).
Sunnudagurinn fór í dásamlegt Parísarrölt, kakódrykkju á kaffihúsum og bara dásemdina eina. Kíkti á Monmartre, gekk að Óperunni og í Tuilieregarðana. Skoðaði á jólaútstillingarnar í stóru búðunum og tók svo lestina heim til Clermont þar sem 12 stiga hiti tók á móti mér í íbúðinni.´
Síðan ég kom heim hef ég verið að frjósa þrátt fyrir að ég skilji ofninn eftir í gangi heima hjá mér, skólinn hlýtur að vera að spara, hér er óendanlega kallt þrátt fyrir milt veður úti.
Nóg um Parísarferð, nú þarf smá umræðu um daglegt líf. Ég hef töluverðar áhyggjur af því að þvottavélin mín lendi í íbúðinni á hæðinni fyrir neðan. Þegar hún vindur þá titrar gólfið í herberginu hennar og skelfur, haldið þið að það geti verið að þetta sé bara e-r smá planki sem hangir af gömlum vana? Ég þori varla lengur að þvo, sýnist svei mér þá vera sprungur á milli veggjar og gólfs.
Og svo að lokum, hvað á þessi dýra evra að þýða? Ég sem hef haldið aftur af mér að mestu við jólagjafakaup og svo er evran bara orðin rándýr......
Segjum þetta gott í bili, hlakka til að sjá ykkur öll eftir rétt rúma 20 daga (24 til að hafa þetta nákvæmt, veit samt ekki hvort ég muni endilega heilsa upp á línuna um leið og ég lendi hehe).