Bergrún
Þegar klukkan er 17:55 verður mér hugsað til Kötlu
Þegar klukkan er 17:27 verður mér hugsað til Öræfajökuls
Ég held ég sé nörd!
En nörd sem á sjóðandi vísakort eftir flugmiðakaup. Jamm réð ekki við mig lengur og skellti mér á miða til Köben og annan heim. Keypti bara aðra leið :-)
Góða helgi
Gleðilegt sumar
Langt síðan ég hef upplifað Sumardaginn fyrsta með hátíðarhöldum. Vonandi verður það svo á næsta ári.
Síðustu ár hef ég verið erlendis á þessum stórmerkilega degi og árin þar á undan var ég bara í skóla og náði ekki að njóta hans sem skyldi, nema prófalestur geti talist til nautna.
Hér eru síðustu dagar páskafrísins og því margt lokað, sundlaugin er lokuð og því komst ég ekki sundsprettinn minn og ákvað að fara og skokka smá í hádeginu. Gekk að skokkstaðnum og sá að þar var allt lokað líka!! Ákvað þá að fá mér bara að borða og rölta aftur í skólann með samlokuna mína.
Ég verð að segja að ég hlakka til þegar þetta frí tekur enda og ég get farið að koma rútínunni minni í gang aftur, jamm ég er alveg eins og litlu börnin, fer alveg í kerfi þegar e-ð brýtur upp rútínuna mína.
Annars er ég að velta fyrir mér hvort ekki sé kominn tími til að heilsa upp á okkar fornu höfuðborg. Held að ég fjárfesti í flugmiða til Köben í júní og svo auðvitað í öðrum til að komast heim.
Já, líklega er það partur af rútínunni að eiga nægilega marga flugmiða....
Jæja þá hafa allir flugmiðarnir sem ég sat á hér í byrjun árs verið notaðir! Ég á ekki einn einasta flugmiða í dag og er eiginlega farin að hafa áhyggjur af þessu eignaleysi mín, hvernig ætla ég að komast heim í sumar? Kíkti í fljótheitum á verð aðra leið um miðjan júni (nú er sagt að það sé hægt að kaupa bara aðra leið) og hjá uppáhaldsfélaginu voru mér boðin kostakjörin rúmlega 37 þús krónur! Já þetta er svei mér hræbillegt! Hjá hinu félaginu voru kjörin ögn skárri en mér ofbauð engu að síður, rúm 21 þús.
Að öðrum og skemmtilegri málum. Ég er komin aftur til baka frá Vínarborg og ef þið eruð búin að gleyma því (ég hlýt að hafa sagt frá því 2005) þá er þessi borg alveg dásamleg. Ef þið eruð að leita ykkur að borgarferð þá mæli ég eindregið með heimsókn til Vínarborgar.
Ég var nú samt ekki eins dugleg að skoða mig um í borginni þetta árið því ég var svo upptekin á ráðstefnunni minni. Tókst að flytja erindið mitt skammarlaust og jafnvel bara með sóma þrátt fyrir að ég hafi nú líklegast talað örlítið of hratt. Hægi bara á mér næst :-)
Og þá er komið að aðalfréttunum. Hér er spáð sumri og sól frá og með fimmtudeginum! Líklega hafa Frakkar (eða í það minnsta franskir veðurfræðingar) séð að sér og ákveðið að taka upp gamla og góða íslenska siði og fagna sumri þennan fimmtudaginn. Sem sé íslenska sumarið heldur innreið sína í Frakklandi með 20-27 stiga hita á fimmtudag. Jibbbbbbí
Lifið heil
Ég óska eftir námskeiði í því að klára hluti sem ég byrja á! Ég er með óendanlega mörg verkefni sem ég hef byrjað á en aðeins örfá sem ég hef klárað. Hvað er til ráða??
Já 7. apríl þetta er meiri dagurinn. Ég er búin að vera súperpirruð í allan dag og svo fékk ég leiðindafréttir seinni partinn. Það góða við þær var að ég sá að mér í óþarfa pirringi, til hvers að flækja lífið meira en þörf er? Höfum við það ekki flest mjög gott? Ég hef yfir fáu að kvarta og ætti að reyna að muna það frekar en að búa til ekki aðeins úlfalda úr mýflugu heldur heilu úlfaldalestirnar. Fannst það nokkuð gott þegar þetta var sagt við mig.
Ég ætla að reyna að hætta að gera úlfaldalestir :-)
Sælt veri fólkið
Mér sýnist á öllu að ég verði að skella mér aftur í grunnskólann!! Já ég viðurkenni það hér með fúslega að stafsetningin mín er ekki upp á tíu og auðvitað er það ekki til sóma að skrifa slakan texta fullan af villum, alls ekki. Lofa að reyna að taka mig á, glugga jafnvel í orðabók ef hún er við höndina. Þetta ætti ég að tileinka mér á fleiri tungumálum því letin í mér er slík að ég hef nú búið í Frakklandi í á fimmta ár og hef enn ekki fjárfest í franskri orðabók!
En það sem ég vildi sagt hafa er að það er sorglegt að sjá hvernig farið er með okkar ástkæra móðurmál, það er að sífellt að verða blæbrigðalausara að mér finnst. Takið til dæmis eftir því hvað fólk notar mikið orðið búið... það er búið að þessu og hinu en ekkert hefur verið gert... ef þið "fattið mig" ;-)
Ég mun reyna að taka mig á, byrja á því að lesa meira af bókmenntaverkum sem eru skrifuð á fullkominni íslensku, þannig kannski næ ég betri tökum á eigin tungu.
Já þá er hrekkjalómadagurinn að baki! Ég sá að það væri því sem næst ómögulegt að láta ykkur hlaupa apríl í raunveruleikanum þannig að ég gerði mitt til að koma ykkur í nethlaup.... og mér sýnist það hafa tekist með nokkra hehehe
Annars fínt að frétta, vorið er að koma hér, trén að fá á sig sæmilegustu slikju og spáð 20 stiga hita í suðurfrakklandi í dag, fer svo kólnandi þegar líður á vikuna.
Fleira var það ekki.
Haahhhhhh FYRSTI APRÍL :-)