Bergrún
Munið þið eftir Meinhorninu sem var á Rás tvö hér í "gamla daga"? Ég sakna þess þáttar, þrátt fyrir að skilja varla neitt í neinu þá fannst mér þetta skemmtilegur þáttur, þangað hringdi fólk til að kvarta og ekki til neins annars.
Hér kemur Meinhorn Bergrúnar.
Ég játa fúslega að hafa horft á hvern einasta þátt Laugardagslaganna í vetur þrátt fyrir að hafa verið erlendis, já og líklega þess vegna missti ég ekki úr þátt. Ég gat nefninlega gripið í þessa þætti þegar mér hentaði þar sem ég fylgdist bara með á netinu. Húrra fyrir RUV að gera mér þetta mögulegt. EN.... þegar kom að lokaþættinum fylgdist ég með af mikilli innlifun og þegar spennan var sem mest var bara klippt á sendinguna, greinilegt að þátturinn fór aðeins fram yfir áður auglýstan og ákveðinn tíma. Þetta var svo sem ekki í fyrsta sinn sem endirinn er klipptur aftan af þáttum og ég hef ekkert mikið kvartað undan því. En í gær fékk ég alveg nóg, var að fylgjast með handboltaleik (já sumt er heilagra en annað), æsispennandi leikur (næstum) og svo þegar 10 mín voru eftir þá var bara ákveðið að stoppa sendinguna :-(
Hana, þá er kvartinu lokið. Sem betur fer er ég á leiðinni heim og get horft á sjónvarpið þar sem ég get ákveðið sjálf hvort ég horfi á dagskrárefni til enda eður ei.
Eitt þykir mér undarlegt. Á hverju vori þegar ég heyri um góða veðrið á Íslandi þá verð ég öfundsjúk! Þrátt fyrir það að ég er stödd í landi þar sem er heitara og "betra" veður en almennt verður á eyjunni góðu, jafnvel þegar best verður.
Þessa dagana get ég ekki hrópað húrra yfir veðrinu hér í Clermont. Síðan himnarnir opnuðust í Disney landi fyrir um tveimur vikum (einni og hálfri ok) hafa þeir bara ekkert lokast aftur. Fólk hér hefur áhyggjur af kirsuberja uppskerunni, þetta er tíminn þegar berin hafa lítið við vatn að gera, það eina sem þau þarfnast eru sólargeislarnir. Ég er nú hrædd um að Frakkarnir eigi eftir að nota þessa setningu: "il manque un peu de soleil" (það vantar aðeins sól) oft þegar þeir fá sér kirsuber í ár.... nema það fari að stytta upp fljótlega. Vá hvað ég vona að kirsuberin fari að roðna!
Í framhaldi af þessu kemur smá spekúlering um íslenska sumarið sem skollið er á. Ég er svartsýnismanneskja, trú ekki að tvö sumur í röð verði frábær á Klakanum og hef á tilfinningunni að það verði vætusumar. Hvernig er hægt að sætta sig við franskt vætuvor og að fara svo heim í íslenskt vætusumar?
Vonandi eru þetta óþarfar áhyggur (heitir þetta ekki að gera úlfalda úr mýflugu? Að búa til vandamál þar sem engin eru í stað þess að lifa bara í núinu og taka því sem lífið býður með opnum örmum þegar það kemur?)
Jæja svo fór sem fór!
Ég var alveg handviss um að Íslandi gengi vel í ár. Ástæðan er sú að síðast þegar ég horfði á keppnina í Frakklandi lentum við í 2. sæti. Einhvernvegin hélt ég þess vegna að það nægði að planta mér fyrir framan franskan sjónvarpsskjá og þá hefðist þetta.... það var greinilega misskilningur.
Ég verð bara að segja að ég skil þetta ekki, hvernig komumst við þá ofarlega í keppninni? Þetta var eina ráðið sem ég kunni.
;-)
Eftir blogghvatningu er ekki annað hægt en að blogga meira :-)
Ég hringdi í góðgerðarfélag og gaf þeim húsgögnin mín. Menn á þeirra vegum mæta 5. júní og tæma íbúðina mína. Hvort þetta er af góðmennsku gert eða ekki veit ég varla, í rauninni geri ég þetta eingöngu vegna þess að þetta er auðveldasta leiðin fyrir mig að losna við draslið (gat þó selt tvo litla sæta bláa stóla og einn lampa).
Það verður sem sé fjör hjá mér í tómri í búð frá 5.-8. júni en að kveldi þess 8. mæta leigusalarnir mínir (vonandi með trygginguna mína í vasanum) og taka út íbúðina með það í huga hvort ég hafi gert rispur og holur e-s staðar og síðast en ekki síst munu þau athuga hvort ég sé snyrtileg snót eða subbulína! Það eina sem kerlan sagði við mig þegar ég bað um "rendezvous" til að skila lyklunum var að ég yrði að skila öllu HREINU! En ekki hvað?
Ég væri alveg til í að tíminn liði hraðar þrátt fyrir að hann líði í raun of hratt... jamm smá öfugmæli en mig langar heim og því má tíminn herða á sér en á sama tíma gengur blessaða verkefnið mitt ekki neitt þessa dagana og því fer tíminn sér aðeins of greitt. Já kannski má kalla þetta enn eina útgáfu af tilvistarkreppu, kreppa sem herjar sérstaklega á mig og hefur gert síðustu ár :-) Ekki veit ég hvað ég gerði án hennar!
Jæja Júróvision í kvöld. Áfram Ísland... er byrjað að selja miða á atburðinn á vellinum að ári?
Hvers vegna verður fólk heft með aldrinum og þorir ekki að sýna tilfinningar sínar?
Parísarhelgin var alveg frábær og spurningin hér að ofan vaknaði við það að upplifa París með henni frænku minni. Hún þorði alveg að vera hún sjálf og sýna undrun sýna yfir hlutum sem eru ekki eins og hún er vön. Gladdist yfir hverri dúfu sem hún sá og var held ég bara á heildina litið ánægð með ferðina þrátt fyrir smá geðvonsku kast í "gömlu frænkunni" þegar fór að rigna og allt fólkið í Disney landi þvældist fyrir.
Efast þó um að mig langi aftur í Disney land í bráð, þar er jú alveg gaman að vera en allt of margir eru á sama máli og maður þverfótar varla fyrir fólki. Hugsanlega hægt að fara þegar það eru allir í skólanum!
Góðan daginn
Maí mánuður er mikill afmælismánuður og það er ekkert verið að dreifa afmælum neitt jafnt á mánuðinn, nei nei, bara fjögur afmæli á 5 dögum. Nóg um það.
Til hamingju með árin 29 afmælisbarn dagsins, ég er viss um að þú veist hver þú ert ;-)
8. maí.
Þetta er stór dagur!
Hér í Frakklandi er frí og lokum seinni heimsstyrjaldarinnar fagnað.
Í franska útvarpinu mínu var mikið rætt um 60 ára afmæli Ísraelsríkis.
Og síðast en ekki síst er kær vinkona orðin nákvæmlega helmingi yngri en áðurnefnt ríki, ekki lítill áfangi það.
Til hamingju :-)
Já þá er sumarið komið hér hjá mér. Síðustu viku hefur veðrið verið hreint út sagt dásamlegt og hitastigið í íbúðinni minni (sem ég efast ekki um að flestir hugsi um á hverjum degi) hefur farið upp í 24 gráður en helst svona um 20 vanalega. Ágætis tilbreyting frá 14 stigunum í vetur! Og þessum hitahæðum er náð án nokkurrar hjálpar frá rafmagnsofnunum.
Sem sé, hér er fínasta veður og veðurspáin lofar áframhaldandi blíðu.
Ég er búin að selja þvottavélina mína en annað ekki. Held að ég verði að taka myndir af draslinu sem ég á um helgina og reyni að plata e-a til að kaupa draslið fyrir lítið.
Fleira er ekki fréttnæmt, og reyndar var bara ekkert fréttnæmt hér í morgunsárið!!