Munið þið eftir Meinhorninu sem var á Rás tvö hér í "gamla daga"? Ég sakna þess þáttar, þrátt fyrir að skilja varla neitt í neinu þá fannst mér þetta skemmtilegur þáttur, þangað hringdi fólk til að kvarta og ekki til neins annars.
Hér kemur Meinhorn Bergrúnar.
Ég játa fúslega að hafa horft á hvern einasta þátt Laugardagslaganna í vetur þrátt fyrir að hafa verið erlendis, já og líklega þess vegna missti ég ekki úr þátt. Ég gat nefninlega gripið í þessa þætti þegar mér hentaði þar sem ég fylgdist bara með á netinu. Húrra fyrir RUV að gera mér þetta mögulegt. EN.... þegar kom að lokaþættinum fylgdist ég með af mikilli innlifun og þegar spennan var sem mest var bara klippt á sendinguna, greinilegt að þátturinn fór aðeins fram yfir áður auglýstan og ákveðinn tíma. Þetta var svo sem ekki í fyrsta sinn sem endirinn er klipptur aftan af þáttum og ég hef ekkert mikið kvartað undan því. En í gær fékk ég alveg nóg, var að fylgjast með handboltaleik (já sumt er heilagra en annað), æsispennandi leikur (næstum) og svo þegar 10 mín voru eftir þá var bara ákveðið að stoppa sendinguna :-(
Hana, þá er kvartinu lokið. Sem betur fer er ég á leiðinni heim og get horft á sjónvarpið þar sem ég get ákveðið sjálf hvort ég horfi á dagskrárefni til enda eður ei.