Já þá er kominn desember enn eina ferðina. Ég var að kvarta undan því hér fyrr í mánuðinum að ég skildi ekkert í því hvar skammdegið héldi sig, nú kvarta ég ekki lengur!
Ég er búin að vera mjög dugleg í jólastússi eða eins og ein lítil skvísa sagði um daginn: hvenær byrjum við í jólastuðinu..... mun betra orð en jólastress!
Jamm ég er búin að baka nokkru sinnum jólakökur, eyðilagði nokkrar þeirra með því að skella þeim í box sem varð fyrir því óhappi að gleymast í skólatösku með plokkfiskrestum og það varð sem sé úldiðfiskibragð af dýrindis jólakökunum mínum! Já svona getur komið fyrir hjá óreyndri húsmóður!!!!!!
Svo framkvæmdi ég annan vanhugsaðan verknað. Ég ákvað að þvo bílinn minn og til að gera mér dagamun ók ég í gegnum e-a þvottastöðina um daginn (skil ekkert í þessari framtakssemi minni). Um kvöldið fraus auðvitað og síðan hef ég mátt skríða inn í bílinn minn að aftanverðu þar sem allar skrár eru frosnar. Framtakssemin er ekki slík að ég nái að sprauta e-u í skrárnar þegar frostið sleppir tökum sínum á þeim!